frumkvæði og sönnunarbyrgði: er feimni sanngjörn?

Það er til skringileg sönnun í leikjafræði, hún segir okkur að ef að allir eru gagnkynhneigðir og allar konur búa í kastölum og allir vilja stunda einkvæni þá sé til aðferð sem býr til stöðuga pörun, hún virkar þannig að karlar koma í kastalagarðinn hjá þeirri konu sem þeim líst best á og konan horfir út um gluggann og velur sér besta karlinn sem stendur í garðinum hennar og segir honum að bíða fyrir utan. Allir hinir karlarnir fara þá til næstu konu á listanum og bíða fyrir utan hjá henni. Þannig daginn eftir gætu verið nýjir karlar fyrir utan að bíða og konan þarf því að velja sér aftur hver hún vill að sé eftir. Sé þessu haldið áfram þá mun að lokum koma stöðug pörun þar sem engin græðir á því að skipta (miðað við að forgangsröðun haldist stöðug, þetta er s.s. ofureinföldun).

Áhugaverði hluturinn við þessa sönnun er að karlarnir munu alltaf fá betri maka en konurnar ef þessu leikriti er beitt. Það er vegna þess að karlarnir byrja efst á sínum lista og fá því alltaf bestu konuna sem þeir gætu fengið meðan konurnar byrja neðst á sínum lista og sætta sig við skásta karlinn sem birtist. Auðvitað væru það konurnar sem myndi fá betri maka ef við myndum snúa merkimiðunum á sögunni í síðustu málsgrein við. Hinsvegar er ástæða fyrir því að sagan er sögð á þennan veg, þó svo að þetta sé ofureinföldun þá er feðraveldismenningin með tilhugalífsmenningu sem lítur skuggalega mikið svona út, strákar að bjóða stúlkum á stefnumót eða að dansa eða hvað sem það er og svo á að gifta sig að eilífu.

Ég ætla ekki að fara greina tindermenninguna og breytingarnar á leikjafræðinni heldur langar mig meira að pæla í kurteisi og ég tel að góð leið til að nálgast hana sé sanngirni í hvernig er farið með frumkvæði. Því eins og þetta einfalda dæmi sýndi þá felast oft yfirburðir í því að hafa frumkvæðið.

Í tölvunnarfræði þá sjáum við hvernig formleg samskipti stefna á kurteisi, þar eru margar birtingarmyndir en ein þeirra eru svokölluð "denial of service" vandamál, sem koma til vegna ósamhverfu sönnunarbyrgði í samskiptum. T.d. þegar það er vefþjónn (e. server) sem svarar beiðnum af einhverju tagi. Nú gæti það gerst að það kosti lítið að biðja en mikið að svara, þá er hægt að nota annan vefþjón til að framleiða eftirspurnir og halda hinum í kafi (því hann hefur ekki undan að ansa), þetta er auðvitað mjög dónalegt en það er lítið hægt að gera annað en að krefjast sönnunar á því að vinnan sem þú framkvæmdir til að gera beiðnina sé a.m.k. jafnmikil og sú sem þarf að gera til að ansa henni (s.s. "proof of work", sóa rafmagni). Önnur lausn væri aðgangsstýring, þ.e.a.s. koma í veg fyrir að allir geti gert beiðni eða setja mörk á hversu margar beiðnir er hægt að gera osfrv. Þessar kurteisisreglur eru gerðar til að reyna stemma stigum við hagsmunum á villigötum og ég hef verið að halda því fram að líkindamat á trausti sé sanngjarnast.

Hvað sem því líður þá eru rafmyntir og aðrar samþykkisaðferðir í tölvukerfum oft byggðar á að skiptast á frumkvæðinu. Þar er vandamálið sem við viljum leysa samræming, við viljum s.s. að allir séu sammála um hver staða kerfisins er og við þurfum því að skipuleggja hvernig uppfærslur fara fram til þess að kerfið haldist samræmt. Það er oft gert með því að velja leiðtoga sem stýrir uppfærslum og svo til að leysa það að leiðtoginn detti útaf netinu eða álíka þá þarf að hafa aðferðir til að velja nýjan leiðtoga svo að kerfið haldist samræmt. Hér er samræming kerfisins í fyrirrúmi og því er harmleikslegum aðferðum beitt svo þetta ætti að vera kunnugleg pæling, (heterogenous) paxos er aðferðafræði sem nær utanum þetta vandamál og svo eru til einfaldanir svo sem raft ofl. sem getur verið gaman að skoða.

Nú er önnur skemmtileg setning til, CAP setningin, hún segir okkur að það sé nauðsynlegt að samþykkja málamiðlun milli þess að hafa svar á reiðum höndum og að það svar sé satt (s.s. samræmt við aðra þátttakendur). T.d. ef ég er með símanúmer og þú mannst það og einhver annar spyr þig um símanúmerið þá geturu annaðhvort svarað strax (enn kannski er ég búinn að skipta um símanúmer!) eða spurt mig fyrst hvort þetta sé ekki örugglega ennþá símanúmerið mitt. Þessi málamiðlun er eitthvað sem ég talaði um áður þegar ég minntist á fyrirvaralausan málflutning og hvernig hann getur verið réttlátur en hann er líklega ekki samhengislaus sannleikur.

Þegar við erum að tala um manneskjur en ekki tölvur þá er þetta orðið aðeins erfiðara að réttlæta, því við viljum ekki þvinga alla til að vera möppudýr fyrir leiðtoga, það mætti segja að sanngjarnasta leiðin til að skiptast á frumkvæðinu sé einmitt sú að banna þvingun og leyfa fólki að spila á víxl möppudýr og leiðtoga eftir samhengi og eigin gildismati. Þannig getum við forgangsraðað uppfærslum og gert málamiðlun við samfélagið um hverskyns sannleikur gildir. Þetta er auðvitað ástæðan fyrir að við viljum tala saman.

Fíflið í tarot stokknum er einmitt skemmtilegt dæmi því það mætti segja að fíflið sé eina manneskjan sem við treystum fyrir ofbeldinu, fíflið er nefnilega fífl því það beitir ofbeldinu ekki í sérhagsmuni heldur í vitleysu (eða er fíflið fífl því það beitir ofbeldi á annað borð?). Fíflið og frumkvæðið fara saman og það er því gaman að ímynda sér aðstæður þar sem siðblindingjarnir reyna að stýra fíflinu (ofbeldinu) en fíflið lætur illa af stjórn því gildismatið er ekki stöðugt. Svona mótíf eru sígild og örugglega aðrir sem gætu bætt minn skilning á því hvernig skal túlka fíflið. Frumkvæðið og spunaleikurinn er samt margræddur nú þegar á þessari síðu þannig ég skal segja sögu úr eigin lífi.

Ég hafði alltaf gaman af keppnisstærðfræði og fór á ólympíuleikana þegar ég var 17 ára. Mér gekk ekkert vel en það var gaman að reyna finna eitthvað út og þótt maður hefði 9 klst (4.5 klst hvorn dag) þá féll maður á tíma því hvert vandamál var svo stórt möguleikarými að maður var heillengi að leita af lausn. Í einu dæminu (sem var víst erfiðast) þá hafði ég krotað eitthvað niður sem var mikilvæg vísbending og var ein leið til að nálgast lausnina, þannig að erlendu dómararnir voru mjög spenntir að fá þýðingar því þeir höfðu mikinn áhuga á því að reyna gefa þátttakendum stig, en auðvitað voru þau stig bara í boði fyrir að halda fram fullyrðingum sem voru réttar í því samhengi sem okkur var gefið.

Á endanum kom í ljós að ég hafði ekki neina hugmynd um að þessi nálgun væri mikilvæg og raunar fékk ég aldrei að vita nákvæmlega hvað það var sem ég hafði skrifað sem þeir voru að pæla í. Það sem mér fannst hinsvegar skemmtilegt við þrautastærðfræðina (og þessi saga er dæmi um) er einmitt þessi vilji dómarana til að bera part af sönnunarbyrgðinni og hvað þeir voru með kærleiksríka nálgun í túlkun á lausnum. Lausnirnar þurftu auðvitað að vera réttar en framsetningin þurfti ekki að vera fullkomin enda mikil tímapressa í slíkum keppnum. Það var nóg að sýna að þú skildir dæmið og hefðir í raun fundið lausnina, jafnvel þó þú kæmir henni klaufalega til skila. Eftir keppnina gastu talað við hina og þá varð oft skilningurinn slípaður til og lausnin augljós.

Mér leiddist skólinn hinsvegar því þar voru meiri kröfur gerðar til framsetningu því að prófin voru alltaf beint upp úr efni sem maður átti að kunna upp á 10. Þannig er stærðfræði eiginlega eina fagið sem er hundleiðinlegt því það geta allir fengið 10 alltaf í öllum prófum og vitað það meirasegja í prófinu. Mér þótti alltaf skemmtilegra að nálgast fagið eins og keppnirnar þar sem þrautirnar eru ekki með neina vissa aðferðafræði og því er frjáls aðferð í leit af lausnum. Oftast endaru bara á að enduruppgötva þær aðferðir sem verið er að kenna (og meta með prófinu) en að minnsta kosti þarftu ekki að læra heima.

Þannig samhengi ákvarða túlkun og samhengislaus skilaboð eru vitleysa. Fíflið er sífellt að tjá sig samhengislaust og úr verður nýtt samhengi sem gaman er að kanna og leika sér með. Breytingarnar eru samfelldar þökk sé samvinnu okkar allra. Hinsvegar er atkvæðisréttur margra ekki nýttur því að við lítum niður á fíflið og þorum ekki að hleypa því út, frekar viljum við að feðraveldið fari með frumkvæðið. Það er samt bara val því það er alveg hægt að hafa gaman af, þetta þarf ekki allt að vera svona alvarlegt.

Ekkert er nefnilega eins og það virðist vera.